Sjól Mótin Félagið Sjóstöng
Aðildarfélög Veiðireglur Lög

Aðalfundur Sjól 8. mars 2024 fundargerð

Dagsetning: 08.03.2024 kl. 10:00-13:00

Viðfangsefni: Aðalfundur Sjól, Höllinni Grandagarði 18

Fundarritari: Pétur Sigurðsson, ritari Sjól.

Fundaraðilar: Elín Snorradóttir Sjór, formaður Sjól og fulltrúi Sjóve sat fundinn með fjarfundarbúnaði frá Spáni. Pétur Sigurðsson Sjóak, ritari Sjól. Kjartan Gunnsteinsson, fulltrúi Sjór. Marinó Njálsson, Sjór. Lúther Einarsson, fulltrúi Sjór. Guðrún María Jóhannsdóttir, fulltrúi Sjóak. Kári Marteinsson, fulltrúi Sjóak. Marinó Jóhannesson, fulltrúi Sjóskip. Þiðrik Unason, fulltrúi Sjósigl gjaldkeri Sjól. Gunnar Magnússon, fulltrúi Sjósigl. Matthías Sveinsson, fulltrúi Sjónes. Sigurjón Helgi Hjelm, fulltrúi Sjósnæ.

Afrit sent á Guðjón Örn Sigtryggsson, Sjóve.

Aðalfundur er æðsta vald landssambandsins. Aðalfund skal halda árlega á tímabilinu mars-apríl. Aðalfundurinn telst lögmætur sé löglega til hans boðað og 2/3 þeirra fulltrúa sem rétt hafa til setu á fundinum séu mættir. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála. Aukinn meirihluti eða 2/3 greiddra atkvæða þarf til að lagabreytingar öðlist gildi.

Dagskrá

A. Kosning fundarstjóra og ritara
B. Skýrsla stjórnar
C. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram
D. Lagabreytingar
E. Kosning formanns
F. Kosning stjórnar (gjaldkeri og ritari)
G. Kosning skoðunarmanna
H. Ákvörðun árgjalds
I. Önnur mál

A. Kosning fundarstjóra og ritara

Mættir fulltrúar sjóstangaveiðifélaga innan Landssambands sjóstangaveiðifélaga (Sjól) Elín Snorradóttir var kosinn sem fundarstjóri og Pétur Sigurðsson sem fundarritari.

Elín Snorradóttir setti fundinn kl.10:00 og var honum slitið kl. 12:15.

Elín tók við fundarstjórn, hún gerði grein fyrir því að hann hefði kynnt sér boðun fundarins og væri hún í samræmi við lög Sjól, einnig gerði hún grein fyrir því að rétt til setu á fundinum ættu 14 fulltrúar frá 7 aðildarfélögum og á fundinn væru mættir 10 fulltrúar með atkvæðisrétt.

Fundarstjóri lýsti eftir athugasemdum við lögmæti fulltrúa og fundarboðun, engin athugasemd var gerð.

Að því búnu lýsti Elín fundinn lögmætan aðalfund Landsambands sjóstangaveiðifélaga.

B. Skýrsla stjórnar

Elín flutti skýrslu stjórnar, skýrslan er orðrétt hér að neðan.

Skýrsla stjórnar SJÓL fyrir starfsárið 2023 - 2024

Ágætu félagar!

Starfsár SJÓL hófst að afloknum aðalfundi landssambandsins sem haldinn var laugardaginn 4. mars 2023 í Höllinni í Reykjavík.

Formaður á árinu var Elín Snorradóttir en hún var kjörin á aðalfundi 2023 og situr í 2 ár til 2025. Í stjórn til eins árs voru kosnir: Þiðrik H Unason SJÓSIGL, gjaldkeri og Pétur Sigurðsson SJÓAK, ritari.

Samskipti stjórnar SJÓL á árinu fór að mestu leyti fram í gegnum tölvupósta og síma og fjarfundi en alls voru 6 formlegir stjórnarfundnir haldnir á starfsárinu.

Formannafundur 2023
Formannafundur aðildarfélaga Sjól var haldinn 02.09.2023 í Höllinni Grandagarði 18 í Reykjavík. Viðstaddir voru formenn allra félaga nema SJÓVE auk þeirra sátu stjórnarmenn SJÓL þau Elín, Pétur og Þiðrik. Að öðru leyti er vísað til fundargerðar formannafundarins.

Mót sumarsins 2023
Öll aðildarfélög SJÓL nema SJÓVE héldu sitt aðalmót á árinu 2023 SJÓÍS hélt aðalmót sitt en keppti ekki veiðireglum SJÓL og er því ekki talið með, öll félögin nema SJÓVE héldu sitt innanfélagsmót ágætlega fiskaðist á þessum mótum og var heildarafli þeirra á aðalmótunum 96.662 kg og á innanfélagsmótunum 24.948 kg samtals var heildarveiði sumarsins 2023, 121.610kg.

Lokahóf 2023
Lokahófið var haldið 02.09.2023 í Höllinni. Íslandsmeistari í karlaflokki var Pétur Sigurðsson SJÓAK og í kvennaflokki Björg Guðlaugsdóttir SJÓSNÆ. Verðlaun á lokahófi voru vegleg auk bikara voru gjafabréf frá Vesturröst og Cintamani auk úrsins sem Gilbert gefur þeim veiðimanni sem veiðir flestar tegundir en að þessu sinni var það Dariusz Wojciechowski SJÓSNÆ. Einnig voru veitt verðlaun fyrir aflahæsta skipstjórann og gaf Gilbert einnig skipstjóranum úr en aflahæsti skipstjórinn 2023 var Sæmundur Ólason frá Grímsey.

Umsóknir um veiðidaga
Þann 22 nóvember síðastliðinn voru umsóknum um skráningu á afla á opinberum sjóstangaveiðimótum fyrir 7 félög skilað inn til Fiskistofu eins og kveður á um í reglugerðinni, Fiskistofa afgreiddi svo veiðileyfin þann 8. janúar sem bárust félögunum fáeinum dögum seinna og fengu öll 7 félögin leyfi.

Stærstu verkefni SJÓL á árinu.
Samskipti við Fiskistofu . Umsóknir um skráningu á afla/veiðileyfin, skýrslur til Fiskistofu fyrir og eftir öll mót og öll önnur umsýsla er varðar Fiskistofu . Samskipti við aðildarfélögin. Breytingar á veiðireglum. Breytingar á lögum. Útgáfa reikninga á félögin vegna félagsgjalda til SJÓL SJÓL grunnurinn/reiknikerfið. Undirbúiningur Formannafundar og Aðalfundar. Undirbúiningur lokahófs salur, matur og vegna verðlaunaafhendingar þ.e.a.s. verðlaunagripir og gjafabréf fyrir afrek sumarsins og síðast en ekki síst ótal tölvupóstar, símtöl og fjarfundir.

Ég vil þakka meðstjórnendum mínum í stjórn SJÓL og við í stjórn SJÓL viljum þakka öllum formönnum og öðrum stjórnarmönnum sjóstangaveiðifélaganna innan SJÓL fyrir gott samstarf.

Reykjavík . 9 mars .2024
Fyrir hönd stjórnar SJÓL

Elín Snorradóttir
Formaður SJÓL

Fundarstjóri bar skýrsluna undir fundarfólk.

Skýrslan var samþykkt samhljóða.

C. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram

Gjaldkeri Sjól Þiðrik Unason lagði fram ársreikninga fyrir árið 2023 og útskýrði þá.

Fram kom hjá Þiðrik að reikningarnir hefðu verið teknir til skoðunar af Lúther Einarssyni. Lúther staðfesti reikningana, þó með athugasemdum um skort á upplýsingum.

Pétur gerði grein fyrir því að hann teldi að sundurliða ætti reikningana betur og nauðsynlegt væri að gjaldkeri og skoðunarmenn undirrituðu þá áður en þeir væru lagðir fram á aðalfundi.

Fram kom hjá fundarfólki að nauðsynlegt væri að sundurliða betur gjöld og tekjur, einnig að hafa betri samanburð frá fyrra ári.

Ársreikningur Sjól 2023 var samþykktur samhljóða og án athugasemda.

D. Lagabreytingar

Fyrir fundinum lágu engar tillögur um breytingar á lögum Sjól.

E. Kosning formanns

Formaður: Elín Snorradóttir, var kosin til tveggja ára á síðasta ári og fer því ekki fram formannskosning í ár.

F. Kosning stjórnar

Ritari: Pétur Sigurðsson ritari Sjól gaf ekki kost á sér áfram sem ritari. Stungið upp á Marinó Njálssyni sem ritar og var kjörinn ritari með lófaklappi fyrir næsta starfsár.

Gjaldkeri: Þiðrik Unason Sjósigl gaf kost á sér áfram sem gjaldkeri og var hann kjörinn gjaldkeri með lófaklappi fyrir næsta starfsár.

G. Kosning skoðunarmanna

Skoðunarfólk reikninga voru kosnir Lúther Einarsson og Sigurjón Birgisson. Til vara Guðrún María Jóhannsdóttir og Hallgrímur Skarphéðinsson.

H. Ákvörðun árgjalds

Tillaga frá stjórn, árgjald óbreytt 4 % af afreikningi móts sem telur til íslandsmeistara og 35.000 kr. lágmarksgjald.

Samþykkt samhljóða.

I. Önnur mál

a) Breytingar á veiðireglum.

Fyrir fundinum lágu tillögur frá Sjónes og stjórn Sjól um breytingar á veiðireglum.

Tillaga Sjól:
Lagt er til að í 17. grein Stigagjöf til Íslandsmeistara þar sem fjallað er um bónusstig verði gerð sú breyting á texta þar sem fjallað er um bónusstig fyrir stærsta fisk per veiðidag að keppandi fái 6 bónusstig í staðin fyrir 3 eins og núverandi texti kveður á um.

Rökstuðningur fyrir breytingunni:
Samkvæmt þeim útreikningum sem fram hafa farið undanfarin ár, þá hefur framkvæmdin verið sú að það hafa verið gefin 6 stig fyrir stærsta fisk hvers veiðidags en ekki 3 eins og segir í reglunum og 3 stig til viðbótar fyrir sama fiskinn þar sem hann er stærsti fiskur í sinni tegund. Veiðimenn hafa því fengið 9 stig fyrir stærsta fisk hvers veiðidags. Ástæða þessa misræmis má rekja aftur til þess þegar að öllum stigum var skipt niður á tvo veiðidaga. Við forritun og uppfærslu veiðireglna varð misræmi sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Miða við þær umræður sem fram fóru á formannafundinum í haust voru allir sáttir við að halda því áfram og því nauðsynlegt að aðlaga texta í veiðireglunum framkvæmdinni.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga Sjónes:
Lagt er til að í 7. grein Hlutverk trúnaðarmanns a. lið verði felldur út eftirfarandi text sem fjallar um drykkjarvatn fyrir keppendur og áhöfn „og drykkjarvatn fyrir keppendur og áhöfn“ einnig verði sambærilegur texti „drykkjarvatn fyrir keppendur og áhöfn“ í annarri málsgrein 10. greinar Mótsgögn til keppenda felldur út.

Um tillöguna urðu talsverðar umræður.

Samþykkt með meirihluta atkvæða.

b) Umsóknir um mót sumarsins.

Elín lagði fram töflu um umsóknir félaganna fyrir sumarið og úthlutanir til þeirra. Fram kom að talsverðar breytingar eru á dagsetningum innanfélagsmóta, Elín lagði mikla áherslu á að fá tilkynningu um breytingu eins fljótt og auðið væri. Þannig að hún gæti tilkynnt það til Fiskistofu tímanlega. Umræður um hvort að mót verði í Eyjum.

c) Útsend gögn til aðildarfélaga:

Elín gerði grein fyrir útsendum gögnum til formanna aðildarfélag varðandi úthlutaðan afla og veiðar síðustu ára.

d) Félagtal:

Fara yfir félagatöl og hreinsa út þá sem eru fallnir frá og leiðrétta rangar skráningar.

e) Aðild Sjóís að gagnagrunni og heimasíðu Sjól.

Elín fór yfir stöðu Sjóís og félagsmanna Sjóís. Stjórn Sjól falið að vinna málið.

f) Trúnaðarmenn:

Virkja þá betur og gera þeim betur grein fyrir skyldum sínum um að tilkynna brot á veiðireglum til mótsstjórar. Gunnar ræddi um kvörtun skipstjóra hvenær ætti að skrá hana sem kvörtun sem nota mætti til ámynningar.

g) Stjórnarseta formanns.

Elín gerði grein fyrir því að hún muni ekki gefa kost á sér áfram til formanns á næsta aðalfundi. Á næsta aðalalfundi yrði hún búin að sitja óslitið í stjórn í 14 ár og þar af sem formaður í 8 ár og því ágætistími til að láta staðar numið og þar sem hún hafi tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á sér áfram þá væri gott að gera aðildarfélögum það ljóst tímanlega.

g) Lokahóf Sjól:

Elín fór yfir lokahóf Sjól 2023 sem haldið var strax að loknu keppnistímabilinu laugardaginn 2.09.2023. Almenn ánægja var með að halda lokahófið fljótlega í framhaldi af mótum sumarsins en þó mætti vera ein til tvær helgar lausar á milli lokahófs og síðasta móts. Elín lagði til að lokhóf Sjól 2024 yrði haldið í Höllinni félagsheimili Sjól í Reykjavík 14.09.2024

Samþykkt samhljóða.

i) Þátttakendur á formannafundi að hausti.

Pétur varpaði fram hugmynd um að hafa formannafund opinn fyrir félagfólk Sjól til áheyrnar og þátttöku. Stjórn Sjól falið að skoða málið.

j) Fyrirspurn frá Sjór.

Kjartan formaður Sjór lagði fram fyrirspurn um möguleika þess að landa á tveimur stöðum í innanfélagsmóti Sjór. Elín lagði til við Sjór að þau myndu senda erindi á Fiskistofu og fá afstöðu Fiskistofu til þessa erindis.

Ekki voru fleiri önnur mál tekin fyrir.

Elín þakkaði fundarfólki góða fundarsetu og málefnalegar umræður Sjór fyrir afnotin af salnum þeirra. Pétri þakkaði hún fyrir störf sín fyrir Sjól og bauð nýjan ritara velkominn í stjórn Sjól.

Að því loknu sleit hún fundi kl. 13.00.

Fundargerð staðfest og undirrituð af fundarstjóra og fundarrita.

Fundarstjóri Elín Snorradóttir

Fundarritari Pétur Sigurðsson

Gilbert úrsmiður Vesturröst Cintamani