(Staðfestar á aðalfundi Sjól, haldinn í Reykjavík 8. mars 2024)
Landssamband sjóstangaveiðifélaga Sjól setur eftirfarandi reglur sem gilda skulu á mótum aðildafélaga Sjól þar sem keppt er um stig í Íslandsmóti.
Allir félagsmenn aðildarfélaga Sjól 18 ára og eldri svo og þeir sem verða 18 ára á keppnisári geta orðið keppendur á mótum aðildarfélaganna. Félagsmenn sem verða 16 ára á keppnisári svo og 17 ára keppendur hafa einnig þátttökurétt með skriflegu samþykki forráðamanna sinna. Aðildarfélögum er heimilt að veita keppendum utan félaga, innlendum eða erlendum þátttökurétt í sínu móti, en eru ekki skuldbundin til þess.
Félögin viðurkenna allar fiskitegundir sem má draga úr sjó. Keppandi keppir með einna stöng, veiðihjóli og línu. Honum er heimilt að hafa allt að 3 stangir um borð þar af eina varastöng, samsetta með veiðihjóli og línu, en óheimilt er að setja á hana slóða með krókum og sökku fyrr en hin stöngin hefur verið lögð til hliðar og slóði með krókum og sökku tekinn af. Keppanda er óheimilt að víkja frá veiðistað við borðstokk ef veiðafæri eru í sjó. Aðeins má keipa með stöng.
Hámarksfjöldi veiðarfæra á hverjum slóða eru þrjú. Þríkrækja, tvíkrækja eða einn krókur jafngildir einu veiðarfæri á slóða, hvort sem þau eru á lykkju eða slóða.
Veiðarfæri er skilgreint sem gervibeita hvers konar eða sakka sem á er fest þríkrækja, tvíkrækja eða einn krókur.
Slóði er skilgreindur sem línan frá og með efsta öngli að til og með sökku.
Sakka er skilgreind sem neðsti hluti slóða og telst ekki veiðarfæri ein og sér. Heimilt er að festa þríkrækju, tvíkrækju eða einn krók á sökku hvort sem það er beint á sökku „Pilkur“ eða með stuttum slóða „letingja“ og telst það þá eitt veiðarfæri.
Tveir eða þrír krókar sem festir eru hver neðan við annan teljast ekki sem tví eða þríkrækja.
Keppendur á sama báti skulu leitast við að nota sem líkasta þyngd af sökkum. Þeir skulu að jafnaði allir vera á sömu síðu og er óheimilt að veiða nema úr sínu veiðiplássi.
Til að mót teljist gilt í stigagjöf til Íslandsmeistara skal það vera að hámarki tveir dagar. Mótsstjórn er heimilt að ákvarða tíma í upphafi hvers veiðidags og svæði til hafnarveiði. Tíminn skal þó aldrei vera meiri en 30 mínútur og svæðið stærra en 1 sjómíla frá höfn. Mótsstjórn skal tilkynna veiðitíma hvers veiðidags í mótsboði og við setningu móts og skal hann takmarkast við fimm tíma minnst og sjö tíma hámarks veiðitíma. Veiðitími telst vera sá tími sem líður frá því að veiðar byrja á veiðislóð (Á ekki við um hafnarveiði í höfn í byrjun veiðidags) og þar til veiðarfæri eru dregin úr sjó í lok veiðidags. Veiðidegi skal ávallt ljúka út á sjó. Mótsstjórn er heimilt að takmarka stærð veiðisvæðis með tilliti til fjarlægðar frá höfn og vegna annara aðstæðna. Mótsstjórn er heimilt að skipuleggja og auglýsa eins dags veiði innan mótstímans. Veiðimaður sem skráir sig til veiði einn dag, skal gera grein fyrir hvorn daginn hann vill veiða, mótsstjórn úthlutar honum veiðidegi í samræmi við óskir hans ef mögulegt er.
Við mótssetningu er skylt að gera skipstjórum og keppendum ljósa grein fyrir veiðitíma, brottför og veiðitíma á sjó. Láta skal úr höfn á áður auglýstum tíma, þó keppendur séu ekki allir komnir um borð. Heimilt er þó að bregða út frá þessari reglu þar sem aðstæður krefjast þess og að undangengnu samráði við mótsstjórn. Trúnaðarmaður ásamt skipstjóra báts er þá ábyrgur fyrir að ákvæði um lengd veiðitíma samkvæmt. 3. gr. sé haldið.
Ef mótsstjórn telur að veður hamli veiðum annan hvorn daginn heimilast henni að fella keppni niður eða stytta veiðitíma þann daginn. Hamli veður báða daga má fella mótið niður en tilkynna um leið nýjan mótstíma eins fljótt og auðið er í samráði við stjórn Sjól.
Í mótum aðildafélaga Sjól skal velja jafn marga trúnaðarmenn úr hópi keppenda eins og bátar eru margir. Við skráningu í mót skal hvert aðildarfélag tilnefna a.m.k. þriðjung af keppendum sínum til trúnaðarmannastarfa. Vanda skal val trúnaðarmanna og skuli þeir hafa reynslu og þekkingu á reglum Sjól. Mikilvægt er að virkja þá sem eru að koma nýir inn í íþróttina og gera veiðimönnum sem búnir eru að taka þátt í þremur eða fleiri mótum gert kleift að sinna trúnaðarmannastörfum. Við mótssetningu skal mótsstjórn kynna trúnaðarmönnum hlutverk þeirra. Þeim skal afhent eintak af veiðireglum Sjól og mælistikur þar sem skýrt og greinilega kemur fram lágmarksstærð þorsks og ufsa. Keppendum er skylt að koma með allan fisk að landi sem nær lágmarksstærð og skal honum landað óslægðum. Heimilt er keppanda að landa einum undirmálsfiski af hverri tegund, enda sé það eini fiskurinn í viðkomandi tegund og telst hann þá með í tegundaverðlaunum og í heildarafla viðkomandi veiðimanns.
Hlutverk trúnaðarmanns skal vera:
Að hafa yfirumsjón með að fiskikassar, mælistika, beita og ís fari örugglega um borð áður en lagt er að stað til veiða.
Að afhenda skipstjóra upplýsingaumslag og sjá til þess að kynning á björgunartækjum fari fram.
Að sjá til þess að keppendur raði sér á borðstokk í samræmi við mótsgögn, þannig að sá veiðimaður sem efstur er á bátalista í mótsgögnum verði fremstur (næst stefni) og síðan koll af kolli. Trúnaðarmaður skal skrá upphaf og lok veiðitíma á trúnaðarmannaskýrslu og láta skipstjóra staðfesta tímaskráningu. Ef veiðimaður sem ekki er á mótsskýrslu kemur á bátinn skal trúnaðarmaður útbúa miða með einu númeri hærra en fjöldi keppenda sem fyrir eru á bátnum segir til um og láta veiðimanninn draga númer. Sá taki stæði við borðstokkinn eins og númer hans segir til um en aðrir keppendur færist í stæði samsvarandi.
Að sjá um að keppendur skipti um stað á miðjum veiðitíma með þeim hætti að fremsti keppandi (næst stefni) fari aftast (næst skuti) og aðrir færist fram um eitt stæði. Keppandi má ekki renna færi fyrr en aðrir keppendur hafa komið sér að sínum stæðum. Leitast skal við að skipti fari fram á meðan bátur er á siglingu sé því við komið. Ekki er heimilt að sleppa skiptingu.
Að fylgjast með að keppendur fari eftir þeim veiðireglum sem í gildi eru. Keppandi ber þó sjálfur ábyrgð á að afli hans sé stærðarmældur og veiðiílát rétt merkt, einnig skal keppandi sjá um að halda sínum stærstu fiskum í tegund aðskildum frá öðrum afla á veiðum og við löndun.
Ef keppanda finnst á sér brotið að einhverju leyti og vill koma mótmælum til mótsstjóra ber honum að tilkynna það trúnaðarmanni sínum, sem annað hvort einn eða ásamt viðkomandi keppanda kemur mótmælum á framfæri við rétta aðila.
Ef keppandi gerir sig sekan um alvarlega misnotkun áfengis eða annarra vímuefna, fylgir ekki settum reglum eða gerir eitthvað á hlut annarra keppenda, áhafnar og starfsmanna mótsins sem ámælisvert getur talist, ber að tilkynna það til mótsstjóra. Mótsstjórn er heimilt að áminna veiðimann vegna ámælisverðra brota og/eða meina honum frekari þátttöku. Mótsstjórn sem áminnir eða meinar veiðimanni þátttöku skal tilkynna viðkomandi það skriflega og senda stjórn Sjól afrit af bréfinu.
Þegar komið er að landi ber trúnaðarmanni að hafa yfirumsjón með löndun aflans og skal hann kalla til sín annan veiðimann af bátnum til að aðstoða við merkingar og frágang á bryggju. Veiðiílát skal merkt með númeri viðkomandi keppanda; allar aðrar merkingar sem gætu gefið til kynna nafn eða sveitanúmer eru stranglega bönnuð. Skrá skal á trúnaðarmannaskýrslu heildarfjölda veiðiíláta og karanúmer hvers veiðimanns sem landað er í á bryggju og hvaða tegundir fiska hver veiðimaður veiddi.
Ekki mega aðrir en áhöfn og keppendur vera um borð í veiðiskipi meðan á keppni stendur nema mótsstjóri samþykki annað. Fjöldi skráðra keppenda skal að hámarki vera sex keppendur og að lágmarki vera tveir á hverjum báti.
Skipsverji eða annar keppandi má ganga frá afla og skera beitu. Einnig háfa, færa í, innbyrða og losa fisk af önglum keppenda, greiða úr flækjum sem á færin eða hjólin kunna að koma, en annars ber keppanda einum að meðhöndla stöngina og veiðarfærin. Trúnaðarmaður skal sjá til þess að allir veiðimenn hafi sem jafnastan aðgang að aðstoð um borð.
Við mótssetningu skulu keppendur að lágmarki fá eftirfarandi upplýsingar skriflega: Lista með nöfnum keppenda, trúnaðarmanna og báta í mótinu, röðun keppenda á báta, skipan dómnefndar og mótsstjórnar og nafn mótsstjóra. Enn fremur um veiðitíma, ganghraða báta, stærðarmörk fiska og aðrar þær reglur sem mótsstjórn vinnur eftir.
Mótsstjórn skal leggja til veiðiílát og merki á þau, mælistiku, ís og lifandi beitu. Lifandi beita er til dæmis: Smokkfiskur, loðna, síld, sandsíli, kúfiskur. Heimilt er að nota hvers konar gervibeitu.
Við útdrátt á báta fyrir mót skulu gilda eftirfarandi reglur.
Nota skal veiðigrunn Sjól við útdrátt á báta fyrir mót, eftirfarandi reglur skulu gilda.
Skrá skal í veiðigrunn nöfn skipstjóra, nöfn, umdæmisnúmer og skipaskrárnúmer báta einnig fjölda veiðimanna í áhöfn.
Skrá skal í veiðigrunn hvaða skipstjórar eru veiðandi.
Skrá skal í veiðigrunn nafn keppenda og sveitanúmer keppenda.
Skrá skal í veiðigrunn hvaða keppendur eru tilnefndir til trúnaðarstarfa og skulu þeir aldrei vera færri en skráðir bátar í mótinu.
Veiðigrunnur skal raða keppendum af handahófi niður á skráða báta í mótinu.
Veiðigrunnur skal raða skráðum trúnaðarmönnum af handahófi niður á skráða báta í mótinu einum á hvern bát.
Veiðigrunnur skal raða veiðandi skipstjórum niður á þá báta sem þeir eru skipstjórar á.
Veiðigrunni er óheimilt að raða veiðimönnum í sömu sveit saman á bát.
Mótsstjórn er heimilt þrátt fyrir ákvæði e. liðar þessarar greinar að raða keppendum sem skrá sig til keppni samkvæmt eins dags ákvæði 3. gr., á sérstaka báta sem einungis sigla með eins dags keppendur.
Ef bátur fellur úr keppni eftir útdrátt á báta skal áhöfn viðkomandi báts færð í heilu lagi yfir á afleysingabát eða dreift á aðra báta í mótinu. Ef afleysingabátur rúmar ekki keppendur bilaða/forfallaða bátsins, flytjast þeir sem síðast drógust á bátinn yfir á aðra báta. Ef afleysingabátur fæst ekki skulu keppendurnir færast yfir á aðra báta í þeirri röð sem þeir drógust á bátinn svo framarlega að ekki sé fyrir annar keppandi sömu sveitar á bátnum.
Fyrir útdrátt skal liggja fyrir forfallalisti með nöfnum báta sem bæta má keppendum á. Fyrsti keppandinn sem dróst á bátinn er féll úr keppni færist á fyrsta bátinn á forfallalistanum, næsti keppandinn á næsta bát á listanum o.s.frv.
Heimilt er að draga veiðimenn á báta fyrir sitt hvorn veiðidag samkvæmt e-h liðum þessara greinar, enda sé þess getið í mótsboði.
Ef gagnagrunnur liggur niðri við útdrátt á báta skal fara eftir þeim reglum sem voru í gildi fyrir veiðiárið 2008. Þetta skal þó einungis gert í samráði við stjórn Sjól.
Leitast skal við að nota báta af sömu stærð með sem jafnastan ganghraða. Verði því ekki við komið er mótshaldara heimilt að takmarka ganghraða veiðibáta á eigin móti. Tilkynna skal það á mótssetningu. Ganghraði skal þó aldrei vera hærri en 17 sjómílur. Trúnaðarmenn skulu koma þeim tilmælum til skipstjóra og sjá til þess að þau séu virt.
Allir keppendur á mótum aðildarfélaga Sjól skulu tryggðir fyrir tjóni sem rekja má til málsatvika sem voru á valdi mótsstjóra eða mótsstjórnar. Sjól kaupir tryggingar fyrir félögin.
Bátar skulu ekki skráðir í keppni nema fullnægjandi öryggisbúnaður (björgunarvesti) sé handa öllum um borð jafnt fyrir áhöfn sem veiðimenn. Skipstjóri skal kynna keppendum á viðkomandi báti notkun helstu öryggistækja um borð, s.s. björgunarvesta, björgunarbáts og neyðarblysa. Við mótssetningu skal mótsstjórn afhenda skipstjórum (eða í fjarveru hans trúnaðarmanni bátsins) upplýsingalista. Á listanum komi m.a. fram hvernig kynningu björgunartækja skuli háttað, nöfn báta í mótinu og skipstjóra þeirra, símanúmer bátana og mótsstjóra, leyfilegur ganghraði báta á veiðitíma, ganghraði að veiðum loknum svo og á hvaða rás talstöðvar skuli stilltar, einnig skal afhenda skipstjórum ljósrit af tryggingaskírteini og leyfi fiskistofu fyrir mótahaldi. Mótsstjórn skal tryggja að ávallt sé til staðar viðurkenndur búnaður til hífingar á ílátum með afla keppanda þegar í land er komið.
Brúttóvigta skal afla hvers veiðimanns sérstaklega áður en vigtun hefst. Vigta skal allan afla á löggilda vog. Stærstu fiska skal vigta eins nákvæmlega og hægt er en þó aldrei með minna en tveimur aukastöfum. Ef tveir fiskar eða fleiri af sömu tegund eru jafnstórir skal fjöldi fiska tegundarinnar hjá viðkomandi keppendum ráða sætum. Ef tveir eða fleiri keppendur eru með jafn margar tegundir og skera þarf úr um verðlaun skal hlutfall af landsmeti stærstu fiska í tegundum ráða, þó aldrei hærra en 1,0. Samanlagt hlutfall viðkomandi keppenda reiknuð út og hæsta samanlagða hlutfall ræður verðlaunum. Allur undirmálsafli í þeim tegundum þar sem stærðarmörk eru í gildi, skal flokkaður frá við vigtun og skráður sérstaklega. Við flokkunina skal nota mælistikur eins og þær sem notaðar eru í viðkomandi móti. Vigtun afla skal standa óbreytt samkvæmt vigtun starfsmanna mótsins, og er mótstjórn ekki heimilt að breyta henni án þess að kalla saman dómnefnd og fram komi óvéfengjanleg gögn sem sanni að mistök hafi átt sér stað við vigtun eða skráningu.
Við setningu móts ber mótsnefnd skylda til að kynna keppendum hvaða verðlaun eru veitt. Í mótum aðildarfélaga Sjól er keppt um stig til Íslandsmeistara, sbr. 16. 17. gr. Veita skal verðlaun fyrir stærsta fisk móts, stærstu fiska í tegund, flestar tegundir, aflahæstu sveitir svo og þrjá aflahæstu einstaklinga í karla og kvennaflokki. Einnig skal veita verðlaun fyrir þrjá aflahæstu skipstjóra. Að öðru leyti setur hver mótshaldari reglur um verðlaun þau sem keppt er um á mótum aðildarfélaganna. Handhafi farandsverðlauna eða bikars ábyrgist gagnvart mótshaldara að verðlaunin séu á öruggum stað og skili þeim að minnsta kosti mánuði fyrir næstu keppni. Ef flokkaverðlaun eru í boði ber að tilnefna og skrá allar sveitir áður en keppni hefst. Sveit skal skipuð fjórum keppendum. Við útreikning í sveitakeppni skal reikna út meðalafla þriggja aflahæstu keppanda í hverri sveit og skal sá meðalafli ráða sætum í sveitakeppni. Deilitalan við útreikning í sveitakeppni skal ávallt vera þrír.
Frá þessu er þó heimilt að gera eftirfarandi undantekningar.
Ef sveit er skipt upp, skal það gert með þeim hætti að sá veiðimaður sem skráður er inn númer 4 í sveitinni sem skipt er upp, færist yfir í aðra sveit samkvæmt ákvörðun mótsstjórnar.
Ef keppendur eru stakir eða deilitalan gengur ekki upp er mótsstjórn heimilt að raða þeim keppendum sem útaf standa í þriggja manna sveitir, leitast skal við að þriggja manna sveitir séu sem fæstar og aldrei fleiri en þrjár í hverjum flokki.
Sömu reiknireglur gilda um þriggja og fjögurra manna sveitir þ.e.a.s. meðalafli þriggja efstu ræður sætum í sveitakeppni.
Ef veður hamlar veiðum annan daginn er mótsnefnd heimilt að veita verðlaun fyrir eins dags veiði og einnig telst mótið gilt til stiga í Íslandsmeistaratitli. Ákvarðanir mótsnefndar eða dómnefndar um afhendingu verðlauna eru endanlegar. Engu aðildarfélagi Sjól er heimilt að veita verðlaun sem á einhvern hátt stangast á við lög og reglur Sjól.
Þrenns konar stig eru gefin til Íslandsmeistara; mótsstig, bátastig og bónusstig.
Mótsstig: Aflahæsti keppandi í magni, karl og kona, í móti í kílóum talið fær 75 stig fyrir hvorn dag sem veitt er. Annar aflahæsti karl og kona fá 70 stig fyrir hvorn dag sem veitt er, þriðji aflahæsti karl og kona fá 65 stig fyrir hvorn dag sem veitt er o.s.frv. Frá þriðja sæti og niður skal talið niður í töluna 26 með 2 stiga mun á milli keppenda. Eftir það er eins stiga munur á milli keppenda, þannig að næsti keppandi fær 25 stig og síðan koll af kolli niður í 15 stig sem er lámarksstigagjöf fyrir eins dags veiði og fær enginn lægri tölu en það fyrir daginn.
Bátastig: Aflahæsti keppandi á hverjum báti fær 50 stig fyrir hvorn dag sem veitt er, annar aflahæsti 43 stig og 36 stig þeir sem neðar.
Bónusstig: Bónusstig eru veitt með eftirfarandi hætti, fyrir stærsta fisk í tegund pr. veiðidag 3 stig, fyrir landsmet pr. veiðidag 5 stig, fyrir stærsta fiskinn pr. veiðidag 6 stig og fyrir flestar tegundir pr. veiðidag 8 stig.
Við útreikning stiga til Íslandsmeistara eru sex stigahæstu dagar hvers veiðimanns notuð til að fá stigafjölda viðkomandi veiðimanns. Íslandsmeistari, karl og kona, verður sá veiðimaður sem flest stig fær úr sex bestu veiðidögum sínum.
Íslandsmeistarastig eru einungis reiknuð á félagsmenn í aðildarfélögum Sjól og sem keppi undir nafni eigin félags.
Verði tveir veiðimenn jafn stigaháir í verðlaunasætum á keppnistímabilinu gildir sú regla að veiðimaður, sem hefur meira aflamagn talið í kílóum sem hann fær Íslandsmeistarastig sín úr hlýtur Íslandsmeistaratign.
Stjórn Sjól skal halda sérstakt lokahóf/uppskeruhátíð samhliða formannafundi á hausti þar sem veiðimenn og skipstjórar fá viðurkenningar fyrir árangur keppnistímabilsins. Eftirtaldar viðurkenningar skal veita.
Íslandsmeistara konur og karla, þrjú efstu sæti.
Flestar veiddar tegundir samtals á mótum keppnistímabilsins, þrjú efstu sæti.
Stærsta fisk keppnistímabilsins, þrjú efstu sæti.
Heildarafla keppnistímabilsins konur og karla, þrjú efstu sæti.
Stærsta fisk keppnistímabilsins í hverri tegund, 1. sæti.
Aflhæsta skipstjóra keppnistímabilsins, þrjú efstu sæti. (Reikna skal hlutfall aflahæstu skipstjóra í hverju móti út frá meðalafla báta mótsins.)
Ætíð skal deila í dagsafla báts með fjölda stanga veiðimanna um borð
Við útreikning bátsafla og bátastiga skal reikna hvorn dag út sérstaklega.
Mæti keppandi ekki til báts skal hann ekki tekinn með í útreikninga bátsins þann dag.
Stjórn Sjól skal leggja mótshöldurum til samræmdan gátlista um framkvæmd móta , gátlistinn skal vera mótsstjórnum til stuðnings við mótahaldið. Gátlistinn skal kynntur aðildarfélögum til umsagnar mánuði fyrir aðalfund hvers árs og samþykktur á aðalfundi Sjól.
Mótsstjórn skal leysa úr þeim ágreiningsefnum sem upp kunna að koma á mótinu. Mótsstjórn er heimilt að fá aðila með þekkingu á veiðireglum til ráðgjafar ef ágreiningsefni koma upp á mótinu og skal leitast við að þeir séu úr þeim sjóstangaveiðifélögum sem eiga keppendur í mótinu. Við mótsetningu skal tilkynna símanúmer og netfang hjá mótsstjóra og þau tímamörk sem mótsstjórn setur sér til að taka ágreiningsmál fyrir, beiðni um að ágreiningsmál skulu tekin fyrir skal alltaf vera skrifleg eða í rafrænu formi. Rita skal fundargerð á fundum mótsstjórnar sem lúta að ágreiningsmálum sem upp kunna að koma á mótinu og skila fundargerðinni til stjórnar Sjól. Keppendum er heimilt að áfrýja úrskurði mótsstjórnar til stjórnar Sjól.
Komi ekki fram kæra skal mótsstjórn við mótsslit tilkynna að engin kæra hafi borist í mótinu og teljist mótið þar með löglegt.
Reiknimeistarar aðildafélaganna skulu með innskráningu í gagnagrunn Sjól hafa aðgang að veiðiskýrslum aðildarfélaganna. Veiðiskýrsla skal innihalda eftirfarandi: Sundurliðaða töflu með heildarafla hvers veiðimanns þar sem kemur fram afli og stærsti fiskur í hverri tegund, skrá yfir alla báta og sundurliðaðan afla þeirra eftir veiðimönnum, skrá yfir röð keppenda í móti þar sem kemur fram sæti og heildarafli hvers veiðimanns bæði karla og kvenna, skrá yfir allar sveitir og afla þeirra, skrá yfir stærstu fiska í hverri tegund, skrá yfir stærstu fiska mótsins, skrá yfir flestar tegundir, skrá yfir Íslandsmeistarastig allra keppenda bæði í karla og kvennaflokki og skrá yfir undirmálsafla hjá hverjum veiðimanni.
Reglur þessar taka gildi við upphaf veiðitímabils ársins 2024 og falla þá eldri reglur úr gildi.