Dagsetning: 4.10.2025 kl. 11:00 – 13:50.
Viðfangsefni: Formannafundur Sjól, Höllinni, Grandagarði 18.
Fundarritari: Marinó Njálsson ritari Sjól.
Fundaraðilar: Sigurjón Már formaður Sjól, Marinó Njálsson ritari Sjól, Valgerður Hreinsdóttir formaður Sjóak, Kjartan Gunnarsson formaður Sjór, Þiðrik Unason gjaldkeri Sjól og formaður Sjósigl, Sigurjón Helgi Hjelm formaður Sjósnæ, Guðjón Örn Sigtryggsson formaður Sjóve og Marinó Jóhannesson formaður Sjóskip.
Fjarverandi: Matthías Sveinsson formaður Sjónes, og Svala Skúladóttir gjaldkeri Sjónes.
Einnig sátu fundinn sem áheyrnarfulltrúar: Lúther Einarsson frá Sjór og Róbert Gils Róbertsson frá Sjóak.
Áður en fundur hófst voru gjafabréf fyrir lokahóf undirrituð, sem og skjöl fyrir Skattinn, vegna nýs lögheimilis sem skráist á nýjan formann.
Sigurjón bauð sig fram sem fundarstjóra og Marinó sem fundarritara. Samþykkt.
Sigurjón Már lagði fram og kynnti óskir og umsóknir aðildarfélaga um veiðidaga sumarið 2026.
Nokkur umræða var um dagsetningarnar. Formenn fóru yfir Excel með Sigurjóni og mótin voru sett niður.
Óskir félaga um veiðidaga fyrir veiðisumarið 2026 eru eftirfarandi:
Félag | Íslandsmót | Innanfélagsmót | Kynningarmót |
---|---|---|---|
SJÓSKIP | 24.-25. apríl - Akranes | 14. mars - Akranes | Júlí - Akranes |
SJÓSNÆ | 8.-9. maí - Ólafsvík | 16. maí - Rif | Maí/júní - Rif |
SJÓVE | 10.-11. apríl - Vestmannaeyjar | 2. maí - Vestmannaeyjar | |
SJÓR | 19.-20. júní - Patreksfjörður | 21. mars - Reykjavík | |
SJÓNES | 17.-18. júlí - Neskaupsstaður | 30. ágúst - Neskaupsstaður | |
SJÓSIGL | 7.-8. ágúst - Siglufjörður | 26 júlí - Siglufjörður | Júlí - Siglufjörður |
SJÓAK | 14.-15. ágúst - Dalvík | 11.júní - Akureyri | 28. júní - Akureyri |
Talað var um mikilvægi kynningarmóta og samvinnu milli aðildarfélaganna.
Lagt var til að aðalfundurinn verði haldinn í Höllinni, Grandagarði 18, í Reykjavík þann 7. mars 2026 kl. 10:00.
Samþykkt. Rætt var þó um að skipta um staðsetningu, verður ákveðið síðar.
Þiðrik minnti á að Sjósigl bjóðist til að halda lokahóf Sjól árið 2029 samhliða 40 ára afmælismóti Sjósigl dagana 17. og 18. ágúst.
Fiskistofa. Sigurjón lýsti mjög góðum samskiptum við Fiskistofu og nokkrum góðum fundum. Nýtt fólk er á báðum stöðum. Fiskistofa lýsti ánægju með framkvæmd móta aðildarfélaganna, fyrir utan skráningu afla á kynningarmótum. Hnikka þarf til vinnubragða hjá mótshöldurum.
Fram kom að Fiskistofa sjái enga fyrirstöðu við að merkja veidda lúðu sem tegund í keppni, en lífvænlegri lúðu þarf engu að síður alltaf að sleppa. Nokkur umræða skapaðist um það hvernig skuli skrá lúðu í mótskerfi Sjól. Taka þyrfti mynd og mæla lengd, t.d. með því að leggja gogg við. Skrá lengd fremur en þyngd og myndi því ekki reiknast með í aflatölum. Það sama á við um aðrar friðaðar tegundir svo sem háf og hámeri. Ræða þarf betur og breyta veiðireglum og hugsanlega mótskerfi.
Formaðurinn lýsti svo aftur yfir ánægju með sumarið og með Fiskistofu sem hafði gefið okkur topp einkunn.
Veiðitölur. Sumarið gekk vel. Meðalafli hvers veiðimanns á landsmótum yfir hvern dag var 162 kg.
Kynningarmót. Sigurjón tók fram mikilvægi þess að halda kynningarmót til að kenna nýliðum handtökin, velti fyrir sér verklaginu og lagði fram sem leiðarvísi eftirfarandi: Kynningarmót ættu ekki að vera keppni, heldur eingöngu til að sinna og kenna nýliðum. Beina þyrfti nýliðum fyrst á kynningarmót, svo á innanfélagsmót, og meta svo getu þeirra til að taka þátt í aðalmóti.
Umræður. Guðjón sagði að þar sem væri fáliðun væri erfið væri erfitt að stöðva fólk frá því að fara á aðalmót. Sigurjón sagði að hægt væri að segja nei við fólk sem kynni ekkert. Marinó sagði að þetta geti stundum verið vandamál; fólk kann t.d. ekki að haga sér og mæti jafnvel ekki á bryggju.
Menn voru sammála um að þetta sé kannski ekki mikið vandamál og gott að hafa sem leiðarvísir.
Verð. Rætt var um mismunandi verð sem aðildarfélög fá fyrir afla. Margt kemur til: gæði fisks, ástand á mörkuðum eða löndun, t.d. er engin flokkari hjá Sjór, á Patreksfirði. Engin MSC vottun á reikninum frá Patró.
Flottur afli, sumarið gekk vel.
Kvóti. Potturinn er 200 tonn sem 9 félög geta sótt í. Það gerir 22.222 kg á hvert félag ef skipt væri jafnt. Breyttar áherslur eru hjá Fiskistofu: Fiskistofa mun ekki námunda umsóknir eða skerða eins og hún hefur gert. Ef umsóknir félaga fara samtals yfir 200 tonn mun Fiskistofa kasta upp hlutkesti um það hvaða félag fær samþykkta sína umsókn. Það/þau félög sem reka lestina munu fá lítið eða ekkert.
Þetta þarf að skoða mjög vel fyrir næstu umsókn. Skipuleggja þarf samstillta umsókn með einhverjum hætti. Sigurjón var búinn að reikna út meðaltal fimm ára aftur í tímann, en sagði fortíðina segja lítið til um framtíðina. Margt kemur til: ástand í sjó, veðrið, fjöldi veiðimanna o.fl.
Formenn ætla að ræða betur.
Sigurjón óskar eftir að fá tölurnar fyrir lok umsóknarfrests og skoða og meta til þess að samstilla allar umsóknir.
Mótskerfi. Sigurjón nefndi að mótskerfið væri orðið meira en 20 ára gamalt. Það virkar illa á litlum skjám, er hægvirkt og erfitt að breyta. Bráðnauðsynlegt er að uppfæra kerfið, þannig að hægt sé að gera breytingar og viðbætur án þess að þurfa forritara.
Beita Marinó nefndi að í veiðireglum Sjól er skylda að skaffa lifandi beitu, sbr. 10. gr., 2. mgr., sem er oft óþörf. Þetta veldur óþarfa kostnaði. Vill breyta og leggja í hendur mótshaldara.
Veiðar eftir skipti. Marinó minntist á vandræði þar sem ósætti hefði komið upp við skipti við veiðar. Í veiðireglum Sjól segir í 7. gr. d: “Keppandi má ekki renna færi fyrr en aðrir keppendur hafa komið sér að sínum stæðum.” Einhverjum finnst textinn óljós. Þurfa allir veiðimenn að vera tilbúnir til veiða eða dugar að veiðimaður sé mættur á sinn stað með veiðarfæri óklár? Skilgreina þarf betur
Um kostnað stjórnarmanna Sjól. Þiðrik nefndi að óljóst sé hvað stjórnarmenn Sjól eigi að borga; keppnisgjöld og/eða önnur gjöld. Ræða betur á aðalfundi. Kallað var eftir tillögu fyrir aðalfund. Formenn sammála.
Björgunarvesti. Guðjón benti á að meiri áhersla þyrfti að vera á öryggisatriði í keppnum. Nokkur umræða skapaðist. Nefnt var að björgunarvesti gætu skemmst við atganginn um borð. Í veiðireglum kemur fram að björgunarvesti skulu vera um borð og fyllsta öryggis gætt. Guðjón lagði til að Sjól myndi hvetja til notkunar björgunarvesta við veiðar og að björgunarvesti yrðu staðalbúnaður hvers veiðimanns.
Lokahóf 2026. Sigurjón nefndi að Sjól yrði tvítugt á næsta ári, 2026, og óskaði eftir tillögum fyrir næsta aðalfund um hvar og hvenær lokahóf 2026 yrði haldið og yrði þá kosið um það; til að auðvelda undirbúning og framkvæmd.
Setning móta. Bent var á að þægilegra væri að halda setningu móta kl. 20:00 í stað kl. 18:00, því þá er oftast ferðadagur hjá keppendum og einhverjir að koma langt að.
Blóðgun. Umræða skapaðist um blóðgun á stórþorski. Tveimur aðferðum lýst og rætt um athugasemdir sem gætu borist frá vinnslum. Gæti haft áhrif á verð. Nefnt var að treysta þurfi skipstjórum til að gera rétt. Góð ábending og gott að hafa í huga.
Marinó Njálsson, ritari.