(Endurskoðuð lög samþykkt á aðalfundi SJÓL 5. mars 2022)
Heiti sambandsins er Landssamband sjóstangaveiðifélaga, skammstafað Sjól.
Heimili og varnarþing sambandsins fylgir formanni.
Vera málsvari sjóstangaveiðifélaga á Íslandi.
Stuðla að góðri samvinnu við stjórnvöld varðandi mótshald og auka skilning þeirra og almennings á málefnum sjóstangaveiðiíþróttarinnar.
Að semja og gefa út samræmdar reglur um sjóstangaveiði, mótahald og um keppni. Halda skrá yfir stærstu fiska hverrar tegundar sem veiðast í mótum aðildarfélaganna.
Að miðla upplýsingum um keppnir í sjóstangaveiði á Íslandi, m.a. um væntanleg mót, úrslit móta, stigagjöf til Íslandsmeistara auk ýmissa gagnlegra upplýsinga sem geti eflt og aukið þekkingu og virðingu á sjóstangaveiðiíþróttinni.
Að stuðla að góðum samskiptum við erlend sem og innlend sjóstangaveiðisambönd og vera forsvarsmönnum ferðamála innan handa varðandi erlenda veiðimenn sem stunda vilja íþróttina hér á landi.
Jafna ágreining sem upp kann að koma milli aðildarfélaga. Sjól hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum ef aðilar óska þess.
Öll sjóstangaveiðifélög geta sótt um aðild að Sjól.
Stjórn Sjól tekur ákvarðanir um inntöku. Sú meginregla skal viðhöfð að viðkomandi félag hafi haldið eitt mót, sem boðað hefur verið út til allra aðildarfélaga Sjól. Inntaka skal rædd og staðfest eða hafnað af einföldum meirihluta fulltrúa á næsta aðalfundi Sjól þar á eftir, enda liggi þá fyrir boðun um annað mót hjá viðkomandi félagi.
Aðildarfélög skulu hafa haldið aðalfund og samþykkt ársreikninga a.m.k. tveim vikum fyrir aðalfund Sjól ár hvert. Aðildarfélög skulu skila stjórn Sjól ársreikningum eða uppgjöri eigi síðar en 1. nóvember ár hvert.
Aðalfundur er æðsta vald landssambandsins. Aðalfund skal halda árlega á tímabilinu mars-apríl. Ákvörðun um tímasetningu og fundarstað aðalfundar skal tekin á formannafundi Sjól. Sú ákvörðun telst vera lögmætt fundarboð
Stjórn Sjól skal senda aðildarfélögum dagskrá aðalfundar minnst 14 dögum fyrir aðalfund.
Aðalfundurinn telst lögmætur sé löglega til hans boðað. Aukaaðalfund skal boða innan 30 daga ef ekki tekst að boða til lögmæts aðalfundar..
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála. Aukinn meirihluti eða 2/3 greiddra atkvæða þarf til að lagabreytingar öðlist gildi.
Heimilt er að taka mál til afgreiðslu sem snúa að breytingum á veiðireglum á aðalfundi sem ekki hafa verið kynnt í fundarboði enda sé 2/3 hluta fundarmanna því samþykkir. Aukinn meirihluta, 2/3 þarf til að samþykkja mál sem tekin eru fyrir með þessum hætti á dagskrá aðalfundar.
Hvert aðildarfélag á rétt á tveimur fulltrúum á aðalfund og hefur hver þeirra eitt atkvæði. Félög skulu tilkynna fulltrúa sína og einn til vara til formanns stjórnar Sjól fyrir aðalfund.
Fulltrúar hafa því aðeins rétt til setu á aðalfundi að félög þeirra hafi greitt árgjöld sín.
Tillögur um lagabreytingar og breytingar á veiðireglum skulu sendar formanni Sjól minnst 5 vikum fyrir aðalfund og skal formaður senda þær út til aðildarfélaga með aðalfundardagskrá.
Stjórn Sjól skal skipuð þremur mönnum sem kosnir eru á aðalfundi; formanni, ritara og gjaldkera. Firmaritun sambandsins er í höndum gjaldkera. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára. Varamenn stjórnarmanna skulu tilnefndir á aðalfundi frá sömu félögum og þeir. Þeir sem flest atkvæði fá, hljóta kosningu. Hlutköstur skal ráða ef kosning endar á jafnri tölu atkvæða.
Aðrir stjórnarmenn en formaður skulu sitja eitt ár í senn.
Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara til eins árs í senn.
Stjórnin fer með mál Sjól milli aðalfunda og kemur fram fyrir hönd þess.
Stjórn Sjól skal heimilt að kveða sér til aðstoðar einstaka félaga til afmarkaðra verkefna og nefndarstarfa.
Stjórnarmaður sem getur ekki sótt fund skal boða varafulltrúa í sinn stað.
Skylt er að halda stjórnarfund með fulltrúa frá öllum félögum ef fjögur eða fleiri aðildarfélög óska þess, enda geri þeir grein fyrir fundarefni.
Stjórnarmenn Sjól eiga rétt á styrk frá landssambandinu vegna kostnaðar við afhendingu Íslandsmeistaraverðlauna í formi ferðakostnaðar og gistingar, þó ekki hærri upphæð en nemur tveimur meðaltals mótsgjöldum aðildarfélaganna. Þá skal formaður/fulltrúi Sjól geta sótt mót án þátttöku- og lokahófsgjalds og sé það mótshaldara hverju sinni að greiða þann kostnað.
Sérstakan formannafund skal halda að loknu keppnistímabilinu, í október-nóvember til undirbúnings aðalfundi. Skýrslur starfandi starfshópa skulu liggja fyrir á formannafundi. Almenna reglan skal vera sú að hugmyndir um breytingar á lögum eða veiðireglum sem taka á fyrir á næsta aðalfundi skulu kynntar efnislega á formannafundi.
Stjórn Sjól úthlutar aðildarfélögum veiðidögum og veiðistað að fenginni umsögn formannafundar á umsóknum félaganna. Umsóknir skulu berast stjórn eigi síðar en þremur vikum fyrir væntanlegan fund þannig að hægt sé að kynna umsóknirnar í fundarboði. Ef ekki næst samstaða um úthlutun má skjóta málinu til næsta aðalfundar til úrskurðar. Leitast skal við að veiðitími og veiðistaðir skarist ekki hjá félögunum.
Stjórn Sjól skal halda sérstakt lokahóf samhliða formannafundi þar sem veiðimenn og skipstjórar fá viðurkenningar fyrir árangur á keppnistímabilinu.
Komi fram vilji meirihluta aðildarfélaga eða stjórnar um að Sjól skuli lagt niður, skal málið tekið fyrir á tveimur næstu aðalfundum til endanlegrar afgreiðslu.
Slitin nái því aðeins fram að ganga að 2/3 réttkjörinna aðildarfulltrúa samþykki þau.